Fara í efni

Fréttir

Upprifjunardagur

Laugardaginn 18. febrúar var upprifjunardagur hjá Suzukinemendum. Þátttkan var mjög góð og var hópnum skipt eftir hljóðfærum; píanó, fiðla, viola og selló. Farið var í gegnum fyrstu tvær bækurnar og í hléi bauð foreldrafélag Suzukinemenda uppá veitingar.

Gítarnemendur á kaffihúsatónleikum.

Föstudaginn 17. febrúar spila gítarnemendur á kaffihúsatónleikum á 1862 Nordic Bistro. Tónleikarnir hefjast kl 16 og eru allir velkomnir. Tilvalið að fá sér kaffibolla í lok vinnuviku og njóta ljúfra tóna.

Píanómasterclass 11. og 12. febrúar

Nú um helgina verður haldinn Masterclass fyrir píanónemendur í mið- og framhaldsnámi. Halldór Haraldsson miðlar nemendum af visku sinni en alls taka 20 nemendur þátt.

Laus pláss á rafmagnsbassa

Tónlistarskólinn tilkynnir með ánægju að aldrei þessu vant er laust pláss á rafmagnsbassa. Einnig eigum við nú bassa í 3/4 stærð til útleigu og viljum við hvetja áhugasama á aldrinum 10-16 ára til að sækja um. Umsóknareyðublöð má finna hér á síðunni.

Sinfóníutónleikar á sunnudaginn

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands heldur tónleika í Hofi sunnudaginn 12. febrúar. Á efnisskrá eru verk eftir Beethoven og Mendelssohn og píanókonsert eftir Jón Ásgeirsson en þetta er frumflutningur á verkinu.

Víkingur Heiðar

Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari er Íslendingum að góður kunnur. Hann heldur tónleika 5. febrúar 2012 kl. 15 í aðalsal Hofs, Hamraborg. Þar leikur hann m.a. verk eftir Jón Hlöðver Áskelsson fyrrum skólastjóra Tónlistarskólans á Akureyri. Starfsfólk, kennarar og nemendur TA fá miða á tónleika á sérstöku tilboðsverði, almennt verð er kr. 4.900 en tilboðsverð TA er kr. 2.900.

Foreldravika

Þá er runnin upp seinni foreldravika vetrarins. Foreldrum/forráðamönnum nemenda yngri en 18 ára er boðið að koma með í hljóðfæra/söngtíma, hljómsveitaræfingu eða tónfræðitíma.

Masterclass fyrir víólu- og sellónemendur

Miðvikudaginn 4. janúar 2012 verður masterclass fyrir neðri strengi í Hömrum kl 14-17. Leiðbeinandi er Nicole Vala Cariglia doktor í sellóleik frá Boston University. Nicole Vala er einnig fyrrum nemandi Tónlistarskólans á Akureyri. Fyrir nokkrum árum lék hún einleik í sellókonsert Schumanns með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og fór á kostum.

Jólasöngur og spilerí í Hofi

Föstudaginn 16. desember verða nemendur tónlistarskólans út um allt í Hofi að syngja og spila. Blásaranemendur verða með stutt kaffihúsatónleika á 1862 Nordic Bistro kl 16 og kl 16:30 hefja nemendur í tónæði og forskóla upp raustina og syngja nokkur jólalög í Fljótinu. Allir velkomnir!

Jólaball Suzukideildar

Laugardaginn 3. desember halda Suzukihópar sína árlegu jólatónleika og jólaball. Klukkan 11 hefjast tónleikarnir og spila fiðlu-, víólu-, selló- og píanóhópar. Eftir tónleikana verður svo haldið glæsilegt jólaball við undirleik jólasveinahljómsveitar skólans. Ekki er útilokað að óvæntir gestir bregði á leik :)