Hljóðupptökutækni
Hljóðupptökutækni eru hóptímar þar sem nemendur fara í undirstöðuatriði í hljóðupptökum og stafrænni hljóðvinnslu.
Á fyrstu önn er farið yfir undirstöðuatriði hljóðs, svosem hvernig hljóð verður til, hvernig hljóðbylgjur hegða sér og hvað áhrif umhverfi hefur á hljóð. Því næst eru hljóðnemar skoðaðir, og töluverðum tíma varið í að skoða mismunandi gerðir og virkni þeirra, ásamt hljóðnematækni við upptökur. Hópurinn tekur upp talað mál, söng, og kassagítar, svo eitthvað sé nefnt. Að lokum eru stafrænt hljóð skoðað. Hvernig breytum við hliðrænum rafbylgjum í tölur sem tölvur skilja, og hvernig vinnum við með þessar tölur.
Í lok fyrstu annar eiga nemendur að vera færir um að gera einfaldar hljóðupptökur án aðstoðar.
Á annarri önn er aðal áherslan á hljóðblöndun í stafrænu umhverfi. Í byrjun annar er skoðað hvaða þættir gera hljóðblöndun góða. Nemendur fá svo fjölrása upptökur í hendur og verja önninni í að hljóðblanda þetta lag. Í upphafi má einungis nota styrk og staðsetningu í stereo myndinni, en í hverri viku eru svo bætt við effectum og vinnsluaðferðum, og að lokum má nota allt sem hver og einn kýs til að ná fram því hljóði sem hann leitar eftir. Að því loknu er farið í undirstöðuatriði lokavinnslu hljóðs (Mastering).
Í lok fyrsta árs eiga nemendur að vera færir um að hljóðblanda fjölrása upptökur með þeim tækjum og tólum sem þeir kjósa.
Fyrirhugað er að bjóða upp á framhaldsáfanga þar sem kafað verður dýpra í bæði upptökur og hljóðvinnslu.