Skólastefna - Mótuð á vorönn 2018
Einkunnarorð Tónlistarskólans á Akureyri eru Vinátta, Gleði og Víðsýni. Við veitum fjölbreytta þjónustu og sinnum þörfum samfélagsins eftir mætti. Við leggjum áherslu á að við skólann starfi vel menntað og hæft starfsfólk og eru gerðar ríkar kröfur um nákvæm vinnubrögð, ábyrga og góða þjónustu og virka þátttöku starfsmanna í skólaþróun. Skólinn leggur jafna áherslu á almenna tónlistarfræðslu sem og krefjandi einkakennslu í hljóðfæraleik, söng, tónsköpun og bóklegum fögum. Starfsfólk skólans leggur mikið upp úr þróunarstarfi og samstarfi og vill efla tengingar við aðrar menntastofnanir svo sem Háskólann á Akureyri, framhaldsskólana á svæðinu sem og leik- og grunnskóla Akureyrarbæjar. Með því viljum við tryggja að sú mikla sérþekking og kraftar sem búa í lærdómssamfélaginu nýtist samfélaginu öllu sem best.
Við viljum að skólinn okkar sé öllum opinn og skv. stefnu er mikið lagt upp úr því að mæta þörfum, getu, áhugasviði og hæfileikum hvers og eins. Að sama skapi höfum við gert það að stefnu okkar að veita nemendum sem hyggjast stunda tónlist sem aðalstarf, sérhæfða þjónustu í samvinnu við framhaldsskóla og háskólasamfélagið. Við leggjum þó ekki síður áherslu á náið samstarf við leik- og grunnskóla Akureyrarbæjar með því að standa fyrir fjölbreyttri tónlistarfræðslu og samstarfsverkefnum miðað að stærri hópum. Stefna okkar er að auka tónleikahald tónlistarnemenda í grunnskólum Akureyrarbæjar í samstarfi við skólastjórnendur og kennara skólanna og standa fyrir reglulegum kynningum á hljóðfæra- og söngtónlist meðal leikskólabarna bæjarins. Við höfum öll sett okkur það að markmiði að koma fram af fagmennsku, virðingu og heilindum í okkar störfum og leitumst við að vera nemendum góðar fyrirmyndir.
Við viljum eiga í góðu samstarfi við Menningarfélag Akureyrar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og stefnum að því að gera nemendum kleift að taka þátt í hljómsveitastarfi sveitarinnar sem og stuðla að samstarfsverkefnum fyrir lengra komna nemendur. Við gerum okkar besta til að bjóða nemendum rými til æfinga og leggjum áherslu á að öll aðstaða til tónleikahalds og æfinga sé með því besta sem gerist á landinu og viljum stuðla að samtali við grunnskóla bæjarins um að efla möguleika grunnskólanemenda til að stunda nám sitt á skólatíma.
Tónlistarskólinn hefur gert það að stefnu sinni að námsmat nemenda sé einstaklingsmiðað og fjölbreytt. Við viljum stuðla að aukinni ábyrgð nemenda á eigin námi og framvindu og efla samtal innan lærdómssamfélagsins um markmið, þarfir og kennsluaðferðir. Stefnt er að því að á bak við allar greinar séu sýnilegar áfangalýsingar og virkar kennsluáætlanir sem styðja við ofangreind markmið. Við viljum að sama skapi leita nýrra leiða til að tækniþróun styðji við upplýsingamiðlun og kennslu bóklegra sem og verklegra greina og skoða nýja möguleika til fjarkennslu.
Við í Tónlistarskólanum á Akureyri viljum stuðla að samkennd nemenda, efla sjálfsmynd þeirra og styðja við félagsleg tengsl þeirra í skólastarfinu. Við viljum eiga beint samtal við samfélagið um þróunarstarf, þarfir og starfshætti og höfum sett okkur það markmið að vera í fararbroddi þróunar og nýsköpunar í tónlistarkennslu á landsvísu. Tónlistarskólinn á Akureyri vill tryggja að innan veggja Hofs verði ávallt öflugt lærdómssamfélag þar sem kennarar, annað starfsfólk og nemendur taka saman ábyrgð á skólastarfinu, læra, uppgötva og gleðjast.
Skólastjórnendur Tónlistarskólans hafa einsett sér að styðja við framkvæmd skólastefnunnar með því að gera skriflegar áætlanir um einstaka þætti hennar og fylgja þeim eftir með reglulegu mati sem byggir á skráningum og opnu samtali við nemendur, forráðamenn, starfsmenn og kjörna fulltrúa.