Skólagjöld
HÉR er hægt að nálgast núverandi gjaldskrá Tónlistarskólans á Akureyri. Skólagjöldum er skipt í 8 greiðslur yfir veturinn (ágúst, sept, okt, nóv, jan, feb, mars, apríl). Kjarnagreinar og samspilstímar greiðast sérstaklega ef nemandi er ekki í hljóðfæra- eða í söngnámi. Til að njóta fjölskylduafsláttar þurfa nemendur að vera skráðir á sama forráðamann og með sameiginlegt lögheimili. Fjölskylduafsláttur reiknast af grunngjaldi. HÉR er hægt að nálgast upplýsingar um frístundastyrk
Kennslukostnaður nemenda Tónlistarskólans, þ.m.t. vinnulaun kennara, er skv. núgildandi lögum um tónlistarskóla greiddur að fullu af Akureyrarbæ og tekur mið af kjarasamningum tónlistarkennara. Skólinn innheimtir skólagjöld af nemendum sem svarar til hlutdeildar þeirra í rekstrarkostnaði og eru allar upphæðir ákvarðaðar af bæjarsjóði líkt og aðrar gjaldskrár sveitarfélagsins. Ljóst er að framlag Akureyrarbæjar til hvers nemanda Tónlistarskólans er þó nokkurt og gerir skólinn námskröfur í samræmi við það. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á sínu heimanámi og gerð er krafa um að námið sé stundað af festu og að ástundun sé góð.
Strengja og blásaranemendum skólans gefst kostur á því að leigja hljóðfæri af skólanum. Skólinn hvetur þó nemendur til að eignast sín eigin hljóðfæri eins fljótt og mögulegt er. Upplýsingar um hljóðfæraleigu- og skólagjöld er að finna í liðnum gjaldskrá. Umsækjendur eru einnig hvattir til að kynna sér viðskiptaskilmála skólans vel áður en umsókn er send inn.
Nemendur sem ekki eiga lögheimili á Akureyri geta sótt um skólavist í Tónlistarskólanum og eiga nemendur sem lokið hafa grunn-, og miðprófi í hljóðfæraleik eða grunnprófi í söng rétt á skólavist á kostnað jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Nemendur sem ekki hafa lokið fyrrnefndum námsáföngum geta einnig sótt um nám við skólann en er námsvist þeirra háð því að lögheimilissveitarfélag viðkomandi samþykki að greiða kennslukostnað þeirra að fullu.
Þegar umsókn berst frá nemendum sem ekki hafa lokið grunnnámi í söng eða miðnámi á hljóðfæri sendir Tónlistarskólinn frá sér bréf til lögheimilissveitarfélags með beiðni um að sveitarfélagið greiði kennslukostnaðinn. Viðkomandi lögheimilissveitarfélag getur síðan sótt um framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til móts við kostnaðinn, skv. 7. grein samkomulags ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda.
Að fengnu samþykki lögheimilissveitarfélags eru nemendur teknir inn, hljóta sömu þjónustu og íbúar sveitarfélagsins. Ef lögheimilissveitarfélag hafnar hins vegar beiðni um stuðning við nemendur til náms er skólanum ekki heimilt að samþykkja skólavist nemenda og ef nemendur hafa þegar hafið nám við skólann þegar höfnun berst áskilur skólinn sér rétt til að vísa þeim úr skólanum. Umsækjendum er bent á að afla sér upplýsinga um reglur síns sveitarfélags um stuðning til tónlistarnám utan sveitarfélags um leið og umsókn er send. Nemendur sem fá stuðning síns sveitarfélags til náms við Tónlistarskólann á Akureyri greiða sömu skólagjöld og aðrir nemendur skólans. Tekið er fram að nemendur sem skrá lögheimili sitt á Akureyri eiga jafnan rétt á námsvist og aðrir íbúar sveitarfélagsins.