UPPRIFJUNARDAGUR
UPPRIFJUNARDAGUR
Tónlistarnám með suzukiaðferðinni er í boði hjá Tónlistarskólanum á Akureyri en aðferðin byggir á þeirri grunnhugmynd að öll börn geti lært tónlist, rétt eins og þau geta öll lært móðurmál sitt. Það sem þarf er tónlist í umhverfinu, góður kennari og virk þátttaka og uppörvun foreldra. Í skólanum okkar er hægt að læra á píanó, fiðlu, víólu og selló með þessari aðferð og í dag eru tæplega 60 nemendur skólans að nema tónlist með suzukiaðferðinni. Snar þáttur í náminu er svokallaður upprifjunardagur en þá koma allir suzukinemendur skólans saman og fara yfir allt sem þeir eru búnir að læra. Upprifjunardagurinn er opin öllum suzukinemendum landsins og er auglýst sérstaklega af Suzukisambandinu.
Föstudaginn 10 febrúar síðastliðinn var upprifjunardagur suzukinemenda í Tónlistarskólanum á Akureyri. Það má segja að dagurinn hafi tekist einstaklega vel og það var glatt á hjalla bæði hjá nemendum og kennurum. Allir spiluðu saman „fyrstu lögin“ sem þau lærðu en eftir því sem efnisskráin varð erfiðari fækkaði í hóp spilara og fjölgaði jafnframt í hópi áheyrenda. Sumir fóru „öfuga leið“ þar sem lengra komnir nemendur byrjuðu að spila og smám saman bættist síðan í hóp spilara eftir því sem efnisskráin færðist nær byrjendum. Hér koma nokkrar myndir frá deginum góða.