Fara í efni

TÓNAHLÍÐ AÐ VORI

TÓNAHLÍÐ AÐ VORI

Í byrjun maí lögðu söngnemendur götur bæjarins undir fót, og héldu tónleika á báðum hjúkrunarheimilunum okkar; Hlíð og Lögmannshlíð.

Sex nemendur Barna- og unglingasöngdeildar héldu á Hlíð ásamt Erlu Misti kennara sínum og Daníel píanóleikara, og sungu fyrir heimilisfólk og dagþjálfunargesti. Fluttu þau fjölbreytt, vorleg sönglög, íslensk sem erlend, einsöng jafnt og samsöng. Krakkarnir kynntu lögin sín og sungu af miklum myndarskap, og að lokum sungu öll saman, nemendur og áheyrendur. Það var glatt á hjalla!

Þrír útskriftarnemendur klassískrar söngdeildar, þau Árni Jökull, Guðný Alma og Oddur sungu seinna um daginn fyrir heimilisfólkið á Lögmannshlíð, ásamt Daníel. Þau sungu hvert um sig þrjú sönglög af ýmsum toga, auk þess sem mikið var sungið með heimilsfólkinu.

Móttökur voru afar hlýlegar á báðum heimilum og mikil gleði bæði meðal nemenda, kennara, heimilisfólks og annarra syngjandi áheyrenda. Samstarf tónlistarskólans og hjúkrunarheimilanna hefur hlotið nafnið TÓNAHLÍÐ, og er mikilvægur liður í starfi skólans. Við kveðjum Hlíðarnar tvær að sinni og hlökkum til að heimsækja þær aftur í haust!