SPARILEG UPPLESTRARKEPPNI
SPARILEG UPPLESTRARKEPPNI
Stóra upplestrarkeppnin Upphátt var haldin hátíðleg þann 18. mars í hátíðarsal Háskólans á Akureyri. Þar lásu fjórtán sjöundubekkingar úr grunnskólum Akureyrar upp bæði sögur og ljóð. Það gerðu þau afbragðsvel, og var fagurt á að heyra!
Að loknum flutningi talaðs máls kom röðin að tungumáli tónlistarinnar. Þar mættu nemendur tónlistarskólans keik til leiks að vanda. Strengjasveit 2 lék af krafti tvö fjörug lög undir stjórn Ásdísar Arnardóttur. Þá lék Valur Darri Ásgrímsson undurfallegan menúett eftir J.S. Bach á píanó. Og loks lék Maria Grazyna Wasowicz hressilegt lag um koparsmiðinn káta á túbu, ásamt Risto Laur píanóleikara. Tónlistaratriðin voru hin mesta upplyfting og prýði, og héldust frábærlega í hendur við upplesturinn.
Krakkarnir stóðu sig öll ákaflega vel. Valur Darri, sem einnig tók þátt í upplestrarkeppninni, gerði sér reyndar líka lítið fyrir og vann hana. Þetta var sannarlega góð stund og gaman á að hlýða - bæði orð og tóna. Tónlistarskólinn þakkar nemendum sínum fyrir að prýða upplestrarhátíðina svo fallega og með slíkum myndarskap. Takk krakkar!