Fara í efni

SN - HNOTUBRJÓTURINN

SN - HNOTUBRJÓTURINN

SN - HNOTUBRJÓTURINN Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Point Dansstúdíó sameina krafta sína og setja upp hið sígilda verk Hnotubrjótinn. Um sérlega metnaðarfullt samstarf er að ræða en hin nýju húsakynni SN gera hljómsveitinni kleift að setja upp danssýningu af þessu tagi í fyrsta sinn. Hnotubrjóturinn er sígilt dansverk sem sett er upp víða um heim á hverjum jólum. Tónlistin er eftir Pjotr Tjækovskí (1840-1893) en Hnotubrjóturinn var með hans síðustu verkum.

SN - HNOTUBRJÓTURINN Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Point Dansstúdíó sameina krafta sína og setja upp hið sígilda verk Hnotubrjótinn. Um sérlega metnaðarfullt samstarf er að ræða en hin nýju húsakynni SN gera hljómsveitinni kleift að setja upp danssýningu af þessu tagi í fyrsta sinn. Hnotubrjóturinn er sígilt dansverk sem sett er upp víða um heim á hverjum jólum. Tónlistin er eftir Pjotr Tjækovskí (1840-1893) en Hnotubrjóturinn var með hans síðustu verkum. Sagan hefur verið sögð á ýmsa vegu, bæði á klassískan og nútímalegan hátt. Að þessu sinni sýna nemendur dansskólans Point dansstúdíós ýmis atriði ævintýrsins á frumlegan og sérlega líflegan hátt Dansarnir eru samdir í sameiningu af kennurum og nemendum skólans. Point dansstúdíó er jazzballettskóli sem stofnaður var á Akureyri haustið 2005 af Sigyn Blöndal. Skólinn hefur náð góðri fótfestu og vinsældum og þjónustar nú allt að 400 nemendum á öllum aldri sem taka allir þátt í uppsetningu Hnotubrjótsins. Auk fastra kennara, sem eru 10 talsins, kenna gestakennarar, m.a. frá Íslenska dansflokknum, reglulega við skólann. Dans er alhliða hreyfing og eflir sál og líkama. Dans eflir m.a. sjálftraust, tjáningu, hreyfiþroska og félagsfærni. Skólinn leggur því mikla áherslu á að dans sé fyrir alla. Mikið er lagt upp úr samvinnu og dansgleði í náminu en kennslan byggist á klassískri balletttækni og mismunandi dansstílum. Í lok hverrar annar er haldin danssýning þar sem allir eru með og fá að láta ljós sitt skína. Lögð er áhersla á fagmannlega umgjörð til sönnunar á metnaðarfullu starfi nemenda sem og kennara. Hnotubrjóturinn Sagan gerist á aðfangadagskvöld hjá Stahlbaum-fjölskyldunni. Húsið er skreytt hátt og lágt. Andrúmsloftið er þrungið tilhlökkun og systkinin Klara og Fritz opna pakkana sína. Fritz fær trommu en Klara brúðu sem er líka hnotubrjótur. Fritz öfundar systur sína og rífur dúkkuna af henni sem brotnar og Klara verður mjög miður sín. Sem betur fer tekst að laga brúðuna og Klara sofnar undir jólatrénu með hnotubrjótinn sinn í fanginu. Þegar klukkan slær tólf á miðnætti vaknar Klara og allt er töfrum líkast. Inn í stofuna þrammar heill her af músum undir forystu músakonungsins og smám saman vakna öll leikföngin í stofunni til lífsins. Músakonungurinn reynir að yfirbuga hnotubrjótinn en Klara nær að bjarga honum. Í sama mund breytist hnotubrjóturinn í yndisfagran prins sem fer með Klöru í spennandi ferðalag á framandi staði. Þau heimsækja snævi þakinn skóg og hitta þar undurfagrar dansmeyjar. Því næst fara þau til Sælgætislands.. Þar er svo sannarlega mikið um dýrðir, kexfjöll, brjóstsykurblóm og lifandi blómahaf svo fátt eitt sé nefnt. Í lok veislunnar kveðjast allir með virktum og ævintýrið er á enda. Næsta morgun vaknar Klara, enn undir jólatrénu og með hnotubrjótinn sinn í fanginu. Hún áttar sig á að þetta var allt saman fallegur draumur. Hrífandi og fjörmikil jólasýning fyrir alla fjölskylduna