Fara í efni

Sinfóníutónleikar á sunnudaginn

Sinfóníutónleikar á sunnudaginn

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands heldur tónleika í Hofi sunnudaginn 12. febrúar. Á efnisskrá eru verk eftir Beethoven og Mendelssohn og píanókonsert eftir Jón Ásgeirsson en þetta er frumflutningur á verkinu.

Það er mikill heiður fyrir Sinfóníuhljómsveit Norðurlands að fá tækifæri til að frumflytja píanókonsert eftir Jón Ásgeirsson með einleikaranum Peter Máté en Jón samdi konsertinn sérstaklega fyrir hann. Tónleikarnir fara fram í aðalsal Hofs sunnudaginn 12. febrúar kl. 16.

Á efnisskránni verða einnig Sinfónía nr. 7 eftir Beethoven og forleikurinn Fingalshellir eftir Mendelssohn.

Peter Máté er af ungversku bergi brotinn en hann var fæddur í Rožňava í Tékkóslóvakíu. Hann stundaði píanónám frá ungum aldri og lauk kennaraprófi frá Konservatoríunni í Košice og einleikara- og mastersgráðu  úr Tónlistarakademíunnni í Prag. Á námsárunum vann hann til margra verðlauna í heimalandi sínu og síðar í alþjóðlegum keppnum. Peter hefur verið búsettur á Íslandi frá árinu 1990, fyrst á Stöðvarfirði svo Álftanesi og loks í Kópavogi. Hann hefur starfað við marga skóla en kennir nú við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík. Peter hefur haldið fjölda einleikstónleika, leikið einleik með ýmsum sinfóníuhljómsveitum og tekið þátt í kammertónleikum víða í Evrópu og Bandaríkjunum.