SINFÓNÍUHLJÓMSVEIT ÍSLANDS
SINFÓNÍUHLJÓMSVEIT ÍSLANDS
SINFÓNÍUHLJÓMSVEIT ÍSLANDS
Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur nú í þriðja sinn í Hofi. Mikil tilhlökkun er að taka á móti hljómsveitinni á ný enda með glæsilega efnisskrá í farteskinu þar sem Áshildur Haraldsdóttir leikur einleik í heillandi flautukonsert Rodrigos undir stjórn Önnu-Mariu Helsing, einnar skærustu stjörnu Sibeliusarakademíunnar í Finnlandi.
Concierto Pastoral, flautukonsert spænska tónskáldsins Joaquín Rodrigos, var frumfluttur í London 1978 og hefur allar götur síðan notið mikilla vinsælda. Konsertinn var saminn fyrir James Galway en einleikshlutverkið að þessu sinni er í höndum Áshildar Haraldsdóttur flautuleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Áshildur hefur um árabil verið mikilvirk í íslensku tónlistarlífi, bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar.
Verk Magnusar Lindberg, samlanda Helsing, þykja full bjartsýni, jákvæðni og staðfestu en verkið Expo samdi hann fyrir Fílharmóníusveitina í New York.
Sibelius lauk við fyrstu sinfóníu sína 1898 og stjórnaði sjálfur frumflutningi verksins ári síðar. Sinfónían ber sterk einkenni þjóðernishyggju og var samin undir áhrifum Pathétique-sinfóníu Tchaikovskys.
Anna-Maria Helsing hljómsveitarstjóri lærði hjá Leif Segerstam og naut leiðsagnar Esa-Pekka Salonen og Gustavos Dudamel. Á árunum 2010 til 2013 var hún aðalhljómsveitarstjóri Oulu sinfóníuhljómsveitarinnar, fyrst kvenna til að vera aðalstjórnandi finnskrar sinfóníuhljómsveitar. Helsing hefur stjórnað öllum helstu hljómsveitum Finnlands ásamt hljómsveitum í Skandinavíu og Eystrasaltsríkjunum.