Fara í efni

Nemendur Tónak á sumarnámskeiði í Noregi í júlí 2012.

Nemendur Tónak á sumarnámskeiði í Noregi í júlí 2012.

Nálægt bænum Monsjöen, sem er álíka norðarlega og Akureyri, bara í Noregi, er haldið árlega viðamikið tónlistarnámskeið sem ber nafnið Toppenkurset. Tveir kennarar frá Akureyri fóru ásamt fimm nemendum þangað síðasta sumar.

Nálægt bænum Monsjöen, sem er álíka norðarlega og Akureyri, bara í Noregi, er haldið árlega viðamikið tónlistarnámskeið sem ber nafnið Toppenkurset.

Við vorum tveir kennarar sem ákváðum að kíkja á þetta námskeið sl. sumar og  fórum, undirrituð Petrea Óskarsdóttir þverflautukennari og Þórarinn Stefánsson píanókennari ásamt nemendunum Örnu Karelsdóttur á fiðlu, Jóhönnu Sigurðardóttur á þverflautu, Sunnu Friðjónsdóttur á þverflautu, Óskari Þórarinssyni á selló og Erni Þórarinssyni á píanó.

Hryggjarstykkið í námskeiðinu er hljómsveitarnámskeið undir stjórn breska hljómsveitarstjórans og píanóleikarans Nicholas Carthy. Að þessu sinni var 6. Sinfónía Tchaikovsky valin til æfinga, ásamt fiðlukonsertinum eftir sama höfund. Æfingar hófust mánudaginn 9. júlí og var æft sleitulaust alla vikuna og leikið á tvennum tónleikum helgina 14. og 15. júlí. Arna, Sunna og Jóhanna fóru einmitt á námskeiðið til þess að öðlast reynslu í að spila með sinfóníuhljómsveit. Auk þess að standa sig með glæsibragi í hljómsveitinni þá voru þær allar þrjár mjög duglegar að taka þátt í kammertónlist og eignuðust vini frá Noregi, Svíþjóð, Serbíu og Rússlandi!
Þórarinn og Örn tóku þátt í pánónámskeiði og eignaðist Örn strax píanóvin frá Noregi og fékk að spila fjórhent með honum. Óskar var yngsti nemandinn á námskeiðinu, aðeins 6 ára. Hann fékk að taka þátt í spuna í strengjasveit yngstu barnanna. Stjórnandinn Bergmund Waal Skaslien hreif börnin með sér í spuna með táknum og látbragði sem vakti mikla hrifningu á lokatónleikum námskeiðisins.
Það er mjög hvetjandi að fara á svona sumarnámskeið. Norðmennirnir hafa mikinn áhuga á samstarfi við bæi sem liggja norðarlega eins og þeirra og vonast eftir því að sjá enn fleiri Íslendinga næsta sumar. Námskeiðsgjaldi var stillt í hóf og námskeið staðsett á fallegum stað í heimavistarskóla fyrir utan bæinn Monsjöen.
Nánar má skoða heimasíðu Toppenkurset: toppenkurset.no
Greinarhöfundur
Petrea Óskarsdóttir