Fara í efni

Minningarhátíð

Minningarhátíð

11. nóvember sl. voru 175 ár liðin frá því sr. Matthías Jochumsson fæddist að Skógum í Þorskafirði. Að því tilefi var haldin minningarhátíð í húsi skáldsins, Sigurhæðum, og einnig í Ketilhúsinu um kvöldið. 

Sr. Matthías kom víða við á lífsleiðinni; hann vígðist prestur að Móum á Kjalarnesi, en sat síðar á Odda á Rangárvöllum og Akureyri. Hann gaf einnig út landsmálablöð, en fyrst og fremst var hann skáld, að margra mati einn af fáum andans mönnum þjóðarinnar, sem vert er að kalla "þjóðskáld". En hann var líka mikill tónlistarunnandi; börnin hans lærðu á hljóðfæri, dætur hans fóru til dæmis i söng- og tónlistarnám til Kaupmannahafnar í byrjun síðustu aldar, sem var fátítt á þeim árum. Þær kenndu síðan á píanó og fleiri hljóðfæri heimkomnar og það er mikil tónlist í ættinni, t.d. eru söngfuglarnir Þórunn, Ingibjörg og Dísella Lárusdætur lang- langafabörn Matthíasar. 

Það fór því vel á því, að nemendur Tónlistarskólans á Akureyri heiðruðu skáldið með hljóðfæraleik á Sigurhæðum og í Ketilhúsinu á afmælisdaginn. Myndirnar eru teknar af yngstu fiðluleikurunum, sem spiluðu með miklum sóma í stofum Matthíasar á Sigurhæðum. Í Ketilhúsinu lék strengjasveitin og söngvarar úr söngdeildinni sungu ljóð Matthíasar úr Skugga Sveini. Þessi atriði gerðu mikla lukku og sýna, að innan Tónlistarskólans á Akureyri er mikil gróska. Bestu þakkir frá Sigurhæðum.