Lilja Hallgrímsdóttir
Lilja Hallgrímsdóttir
Lilja Hallgrímsdóttir, sem starfaði í áratugi við skólann, lést 4. maí eftir erfið veikindi og verður borin til grafar miðvikudaginn 14. maí. Lilja kenndi yngstu börnunum í forskóla og tónfræðigreinum og lagði grunninn og kveikti áhuga nemenda sinna á tónlist. Margir þeirra starfa í dag við tónlist. Lilja ólst upp á heimili þar sem tónlist var í hávegum höfð og byrjaði snemma að syngja í Kantötukórnum hjá Björgvini Guðmundssyni og síðar í Kirkjukór Akureyrar og Passíukórnum. Um árabil var hún nemandi skólans hjá Sigurði Demetz áður en hún gerðist kennari við skólann. Lilja var fagurkeri og hafði næmt auga fyrir öllu listrænu og naut skólinn hæfileika hennar,natni og ósérhlífni alla tíð. Eftir að hún lét af störfum fylgdist hún með framgangi nemenda og sótti tónleika nemenda og kennara skólans á meðan kraftar leyfðu. Lilja var ein þeirra sem setti mark sitt á skólann og við minnumst framlags hennar til skólans með þakklæti og sendum ættingjum hennar samúðarkveðjur.