Fara í efni

Gítarveisla með Svani Vilbergssyni

Gítarveisla með Svani Vilbergssyni

Föstudaginn 4. október kl. 15-17 heldur gítardeild TónAk masterklassa með Svani Vilbergssyni. Masterklassinn verður haldinn í Davíðshúsi, Bjarkarstíg 6, og er öllum velkomið að hlusta.

Gítarnemendur munu leika, sem og Svanur sjálfur, og kennir hann þeim um leið eitt og annað um gítarleik og tónlist.

Svanur er víðförull og ötull tónlistarmaður. Hann hefur eflaust frá mörgu að segja og er áhugavert fyrir alla nemendur skólans að hlusta á masterklassa.

Við hlökkum til að sjá ykkur í hinu indæla Davíðshúsi!

 

Laugardaginn 5. október mun Svanur svo frumflytja nýtt verk eftir Daniele Basini, gítarkennara við tónlistarskólann.

Daniele samdi tónverkið Staðir fyrir einleiksgítar í tilefni þess að hann á tíu ára búsetuafmæli á Íslandi.

Svanur mun leika verk Danieles á Tólf Tóna Kortérinu á Listasafninu á Akureyri, Kaupvangsstræti 8. Það verða kortérslangir tónleikar og verða þeir haldnir tvisvar: kl. 15:00-15:15 og kl. 16:00-16:15.

Aðgangur er ókeypis, aðgengi mjög gott, og gaman bæði fyrir börn og fullorðna að koma að hlusta!

Í leiðinni má skoða listasafnið.

 

Mætum sem flest að hlusta á hið splunknýja tónverk, samið í svo gleðilegu tilefni af kennara við skólann okkar!

 

Masterklassinn og tónleikarnir eru haldin í samvinnu við Listasafnið á Akureyri og Minjasafnið á Akureyri, en Minjasafnið hefur umsjón með Davíðshúsi. Tónlistarskólinn fagnar samstarfinu við þær hressu menningarstofnanir, og býður Svan velkominn!