Fjórir geisladiskar frá kennurum tónlistarskólans
Fjórir geisladiskar frá kennurum tónlistarskólans
Kennarar við Tónlistarskólann á Akureyri eru duglegir við útgáfu á tónlist þessa dagana. Hvorki fleiri né færri en fjórir geisladiskar hafa komið út á undanförnum vikum með kennurum skólans.
Diskarnir eru allir fáanlegir á skrifstofu tónlistarskólans, sem og hjá útgefendum sjálfum, og í hinum ýmsu verslunum.
Þráðurinn hvíti, er plata þar sem Helga Kvam píanóleikari og Þórhildur Örvarsdóttir flytja nýja tónlist eftir íslensk tónskáld.
Á plötunni eru lög eftir Jónas Sen,Sigurð Flosason, Harald V. Sveinbjörnsson, Kristjönu Stefánsdóttur, Helgu Kvam og Þórhildi Örvarsdóttur. Upptökustjóri var Haukur Pálmason.
Upptökur fóru fram í Akureyrarkirkju í júlíbyrjun árið 2020.
Platan er aðgengileg á öllum helstu tónlistarveitum ásamt því að vera gefin út á geisladisk.
Helga og Þórhildur hafa í mörg ár starfað saman að fjölmörgum tónlistarverkefnum,stórum sem smáum og flutt tónleikadagskrár um allt land. Þær hafa sérstaklega einbeitt sér að íslenskri tónlist og ljóðum og t.d. sett saman dagskrár í tali og tónum um Huldu
skáldkonu, Davíð Stefánsson, íslenska sönglagið og íslensk Maríuvers. Á þessum tíma hefur orðið til mjög náið samstarf við íslensk samtímatónskáld og voru pöntuð og frumflutt verk eða útsetningar á hverju ári síðastliðin 4 ár. Þráðurinn hvíti er afrakstur hluta þeirrar vinnu.
Hugarró er geisladiskur með 11 vel völdum bænalögum sem hafa verið útsett með það fyrir augum að ná fram ákveðnum hugleiðslublæ og þannig undirstrika tengsl hugleiðslu og bænar. Hugarró er fyrsta sólóplata Margrétar Árnadóttur söngkonu og mun hluti af ágóðanum renna til Píeta samtakanna á Akureyri, sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Um útsetningar og hljóðfæraleik sá Kristján Edelstein gítarleikari.
Þemað sem unnið er með á plötunni er hugleiðsla og bæn. Geisladiskurinn hefur að geyma 11 sálma og bænalög útsett í flæðandi og róandi ambient stíl með söng og minimalískum undirleik hinna ýmsu strengjahljóðfæra.
Hluti ágóðans kemur til með að renna til Pieta samtakanna. Margrét segir þau vera að gera stórkostlega hluti fyrir fólk með sjálfsvígshugsanir og aðstandendur þeirra.
Rákir er nýr diskur Ludvig Kári Quartet og inniheldur hann ferskan og frumsaminn íslenzkan jazzbræðing.
Í Ludvig Kári Quartet er úrval íslenskra og erlendra jazzleikara:
- Ludvig Kári á víbrafón og Rhodes píanó
- Phil Doyle á saxófón
- Stefán Ingólfsson á bassa.
- Einar Scheving á trommur
Rákir var tekin upp í Hofi Akureyri, og upptökumaður var Haukur Pálmason
Diskurinn fæst í Tónabúðinni og Kistu á Akureyri, og 12 Tónum, Smekkleysu, Lucky Records og Reykjavik Record Shop í Reykjavík.
Peysur & Parruk er fyrsta plata Gadus Morhua Ensemble.
Gadus Morhua skipa Björk Níelsdóttir, söngkona og langspil, Eyjólfur Eyjólfsson, söngvari, langspil og flauta og Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, barrokselló, söngur og skáldkona. Hljómsveitin varð til á þjóðbúningahátíð í Stykkishólmi, sem haldin er árlega skömmu eftir Jónsmessu. „Hátíðin ber heitið Skotthúfan og sumarið 2016 var þemað Jörundur hundadagakonungur. Skipuleggjendum hátíðarinnar þótti því viðeigandi að bjóða upp á tónlistardagskrá þar sem gerð yrði tilraun til að sameina kvöldvökur baðstofanna og tónlistarflutning evrópskrar hirðmenningar. Það var þá sem leiðir Eyjólfs og Steinunnar lágu saman og til varð vísir að nýjum (þjóð)tónlistarhópi. Samhljómur langspilsins og barokksellósins gaf strax ímyndunaraflinu lausan tauminn.“
Ekki leið á löngu þar til Björk slóst í hópinn og hafa þau síðan komið fram við hin ýmsu tækifæri, jafn innan lands sem utan. Ber helst að nefna tónleika á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði, Sönghátíð í Hafnarborg og í Les Dominicains menningarsetrinu í Guebwiller í Frakklandi.
Peysur & Parruk var tekin upp í Hofi sumarið 2020, og upptökustjóri var Haukur Pálmason. Diskurinn er fáanlegur í versluninni Kistu í Hofi, og menningarstaðnum Flóru í Hafnarstræti á Akureyri, og 12 tónum í Reykjavík.