FJÖR Á ÆSKULÝÐSDEGI
FJÖR Á ÆSKULÝÐSDEGI
Æskulýðsdagurinn var haldinn hátíðlegur 2. mars í kirkjum beggja megin Glerár, og áttu nemendur tónlistarskólans þar mikinn og fagran hlut að máli.
Í Glerárkirkju stjórnaði Viktoría Sól Hjaltadóttir unglingakór og lék á píanó. Karólína Orradóttir, nemandi við unglingasöngdeild tónlistarskólans, söng einnig einsöng í messunni. En Viktoría er meðleikari barnakóra Glerárkirkju og aðstoðar Margréti Árnadóttur við kórstjórn. Viktoría stundar nám við MA og lærir bæði á píanó og fiðlu í tónlistarskólanum. Gleðilegt er að nemandi skólans skuli taka svo duglega til tónlistarstarfa í bænum okkar, hafandi eflaust nóg á sinni könnu fyrir!
Flautusamspil skólans ásamt Sóleyju Sif píanónemanda hélt á sama tíma uppi miklu og góðu tónlistarfjöri í Akureyrarkirkju. Hópurinn heldur brátt í námsferð til Frakklands, og ætla þær að heimsækja skóla og halda tónleika bæði í París og Normandí. Léku þær hvert lagið af öðru, hvað öðru vorlegra, auk þess sem Sóley Sif lék á píanó undir söng barnakóra kirkjunnar! En við fáum tækifæri til að heyra efnisskrá flautuhópsins á tónleikum í Akureyrarkirkju þann 9. apríl kl. 18:00.
Óhætt er að segja að við megum gleðjast yfir okkar röska unga tónlistarfólki. Til hamingju með æskulýðinn þinn, Akureyri.