Draugurinn Reyri
Draugurinn Reyri
Tónlistarfélag Akureyrar stendur fyrir stórkostlegri Hrekkjavöku-/fjölskyldusýningu-Sögum af Draugnum Reyra sunnudaginn 6. nóvember kl 17:00 í Hamraborg í Hofi.
Draugurinn Reyri hittir löngu látin tónskáld og við fáum að kynnst þeim og tónlist þeirra. Nornin Kíríkí stendur fyrir ýmsum hrekkjum og Næturdrottningin mætir á svæðið. Frumflutt verður lagið Akureyrardraugurinn eftir Daníel Þorsteinsson við texta Hjörleifs Hjartarsonar. Verkið er nokkurs konar óður til óhljóðsins sem var að æra Akureyringa og náði hámarki síðsumars 2020. Í upphafi er spurt: Hvað er þetta ámátlega og óhugnaðarhljóð sem einkum heyrist þegar dimma fer? Fram komu á sínum tíma margvíslegar skýringar og fullyrðingar um uppruna hljóðsins, engin endanleg niðurstaða fékkst þó í málið en um eitt voru þó öll þau sammála sem skoðuðu það og greindu: Þetta var tónninn Gís.
Tónverkið Akureyrardraugurinn hverfist um þennan tón sem er kjarnatónn verksins, hann smígur um hvar sem hann finnur glufu og gengur bókstaflega aftur og fram um verkið frá upphafi til enda. Frumflytjendur verksins á sunnudaginn verða Hlín Pétursdóttir Behrens sópran, Barnakór Akureyrarkirkju undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar og tónskáldið Daníel Þorsteinsson sem leikur með á píanó.
Aðrir flytjendur í sýningunni eru: Margrét Sverrisdóttir leikkona, Blásarakvintettinn Norð-austan, dansarar úr DSA-dansstúdíó Alice, danshöfundur Varvara Voronina, Vala Fannel leikstýrir og Pamela de Sensi er höfundur og listrænn stjórnandi.
Sýningin nýtur stuðnings Menningarfélags Akureyrar, Sóknaráætlunar Norðurlands eystra, Barnamenningarsjóðs, List fyrir alla, Tónlistarsjóðs og Töfrahurðar.
Miðaverð 2500 kr. og hér er hægt að kaupa miða !