Danirnir koma!
Danirnir koma!
Danirnir koma er yfirskrift tónleika sem verða í Hofi laugardaginn 14. maí kl. 16:00 og í Langholtskirkju í Reykjavík sunnudaginn 15. maí kl. 18:00. Þetta eru samstarfstónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Tónlistarskólans á Akureyri. Á þessum tónleikum koma til liðs við SN og TA hljómsveitir frá tveim tónlistarskólum í Danmörku, 45 manna hópur og einnig syngur Karlakór Akureyrar-Geysir með á tónleikunum.
Einleikari á fiðlu er Bård Monsen og stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson.
Á efnisskrá tónleikanna er Finlandia eftir Jean Sibelius, Svíta op. 10 fyrir fiðlu og hljómsveit eftir Christian Sinding og Sinfónía nr. 2 eftir Johannes Brahms.
Tónleikar þessir eru samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Tónlistarskólans á Akureyri, en þessar stofnanir hafa frá því að SN var stofnuð haustið 1993 átt afar farsælt samstarf, en hljómsveitin hefur alltaf að stærstum hluta byggt starf sitt á hljóðfæraleikurum sem koma úr röðum kennara TA.
Einn mikilvægur þáttur í starfi SN er að gefa ungu fólki tækifæri til að vera með og spila í sinfóníuhljómsveit. Að þessu sinni eru það nemendur úr strengjasveitum Tónlistarskólans sem taka þátt í tónleikunum auk nokkurra blásara- og slagverksnemenda.
Á þessum tónleikum koma til samstarfs við SN og TA hljómsveitir frá tveim tónlistarskólum í Danmörku, nánar tiltekið frá Hvidövre og Albertslund. Heimsókn þeirra til Íslands hefur verið í undirbúningi frá því sl. haust og þessir tónleikar afrakstur samstarfsins.
Á tónleikunum í Hofi mun Karlakór Akureyrar - Geysir syngja með í Finlandiu eftir Jean Sibelius sem hann samdi árið 1889 þegar Rússar réðu yfir Finnlandi. Sibelius sem var mikill föðurlandsvinur hafði tekið að sér að semja tónlist við uppfærslu á atriðum úr sögu Finnlands í leikhúsi einu í Helsinki. Uppfærslan var jafnframt dulinn áróður fyrir frjálsu Finnlandi og tónverkið kallaði Sibelius þá Finnland vaknar. Þetta er án nokkurs vafa einn þekktasti lofsöngur til frelsisins sem um getur.
Einleikarinn Bård Monsen er norskur fiðluleikari 32ja ára gamall. Hann var aðeins fimm ára þegar hann hóf fiðlunám hjá Øivind Lund og sýndi strax á unga aldri mikla hæfileika. Hann mun flytja á tónleikunum Svítu op. 10 fiðlu og hljómsveit eftir Christian Sinding fyrir, en hann var eitt þekktasta tónskáld Norðmanna á fyrri hluta 20. aldar að Grieg undanskildum. Svítan op. 10 er meðal kunnustu verka Sindings og er samin seint á 19. öld, þetta er eiginlega fiðlukonsert með fiðluna í algeru aðalhlutverki. Bård Monsen er virkur kammermúsíkspilari og hefur tekið þátt í fjölda tónlistarhátíða í Noregi Einnig hefur hann farið í tónleikaferðalög til Evrópu, Bandaríkjanna, Suður-Ameríku og Asíu. Hann hefur spilað með þekktu tónlistarfólki víðs vegar um heiminn og má þar nefna Henning Kraggerud en með honum gaf hann nýlega út geisladisk með verkum eftir Eugene Ysaye sem var tilnefndur til norsku tónlistarverðlaunanna.
Tónleikunum lýkur á Sinfóníu nr. 2 eftir Johannes Brahms en þessa sinfóníu samdi hann þegar hann dvaldi í sumarfríi í austurríska bænum Pörtsdach. Hann var í góðu formi á þessum tíma og líkaði vel í Pörtsdach þar sem hann sagði svo mikið vera af laglínum á sveimi að hann þyrfti að gæta sín á því að stíga ekki á þær. Sinfónían er líka glaðlegri en aðrar sinfóníur hans þó Brahms segði sjálfur að hún væri svo sorgleg að hljóðfæraleikararnir þyrftu helst að spila hana með sorgarband á hendi, hvað svo sem hann meinti nú með því.
Stjórnandi á tónleikunum er Guðmundur Óli Gunnarsson en hann hefur verið a aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands frá stofnun hennar og starfar einnig við Tónlistarskólann á Akureyri þar sem hann m.a. stjórnar strengjasveit skólans.