Borgar rekstur tónlistarskólanna sig?
Borgar rekstur tónlistarskólanna sig?
Tónlistarskólanum á Akureyri barst þessi blaðagrein sem birtist í morgunblaðinu og vikudegi frá Jóni Hlöðveri Áskellssyni í tilefni Dags tónlistarskólanna sl. laugardag en um 1000 manns tóku þátt í deginum sem lukkaðist framan vonum. Kennarar og nemendur skólans þakka gestum innilega fyrir komuna á þessum frábæra degi.
Borgar rekstur tónlistarskólanna sig?
Spurning á degi tónlistarskólanna 22. febrúar 2014.
Í Hamraborg,menningarhúsinu Hofi á Akureyri, á degi t ónlistarskólanna komu á fjórða hundrað nemendur og kennarar Tónlistarskólans á Akureyri fram.
Ívar Helgason söngvari, leikari og kennari var sögumaður sem með þessu líka glæstu æskuliði fór í gegnum tónlistarsögu aldanna og endaði svo á að allur skarinn lék og söng lag sértaklega útsettu í tilefni dagsins og stjórnað af Alberto Porro Carmona.
Tónlistarskólinn á Akureyri og raunar öll okkar þjóðmenning nýtur þess að eiga slíkum starfskröftum á að skipa.
Margir vita hve oft ég get ekki orða bundist og er nokkuð málglaður.
En að stinga niður penna, eins og sagt var, geri ég miklu sjaldnar en mig langar til.
En nú liggur mikið við og verður minni pennastungu beint að þessari orðræðu sem oft heyrist um að þetta eða hitt borgi sig eða borgi sig ekki, sem er svo oft að mínum dómi byggt á rangri mælitölu, eða réttara sagt útreikningum sem ekki er hægt að fella undir reikniskúnstir arðseminnar.
Tveimur sinnum þéttsetinn bekkurinn í Hamraborg í dag, fögnuður, gleði, kærleikur, flæðandi bros um salinn og smitandi gleði úr hverju andliti verður ekki mæld.
Hvar væri menningarhúsið Hof statt án þess að hafa Tónlistarskólann og starf Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands sem hryggjarstykki innan sinna veggja?
Allur þessi mikli fjöldi fólks sem hefur í gegnum árin tekið þátt í og notið tónlistarinnar á Akureyri er ekki fyrirferðamikill í orðræðunni um það hvað borgi sig?, lætur jafnvel of lítið í sér heyra í daglegri umræðu.
Nær sjötíu ára starf Tónlistarskólans á Akureyri sýnir og sannar að mat á gildi hans verður svipað og reyna að meta gildi Súlutinds eða Pollsins.
Mér liggur við að segja, að því miður þá nær þetta ómögulega gildismat ekki til allra, því þeim lífsgæðum að fá að njóta tónlistar er misskipt.
Staða Tónlistarskólans á Akureyri verður ekki metinn nema með mælikvarða sögunnar einnar, og/eða með viðmiðuninni hvar værum við stödd á Akureyri án þessa skóla?
Sannarlega býr Tónlistarskólinn á Akureyri við aðstöðu sem allavega er hvað varðar miðpunkt í menningar- og listalífi ekki stærra bæjarfélags er á heims-vísu og það er vel.
Á degi tónlistarskólanna og raunar alla daga ársins er ég sannfærður um að við búum við sérstöðu hvað varðar árangur tónlistarmenntunar á heimsvísu.
Það er allavega mikilvægt að öll skref sem tekin verða í breyttum aðbúnaði og fyrirkomulagi kennslu Tónlistarskólans á Akureyri hafi það að marki að bæta aðstöðu bæjarbúa og fjölga tækifærum allra til að hrífast eins og ég og 1000 manns á Akureyri gerðu á degi tónlistarskólanna í Hamraborg í dag.
Það margborgar sig!
Akureyri 22. febrúar 2014
Jón Hlöðver Áskelsson, tónlistarmaður.