Fara í efni

Trommusett

Trommusettið telst vera ungt hljóðfæri þó að einstakir hlutar þess eigi sér flestir langa sögu. Með tilkomu bassatrommupedala um aldamótin 1900 varð mögulegt fyrir einn trommuleikara að gegna hlutverki tveggja með því að leika á sneriltrommu og bassatrommu samtímis. Þar var kominn kjarni hljóðfærisins sem síðan hefur verið í stöðugri þróun en um 1930 tók trommusettið á sig þá mynd sem er ríkjandi í dag með pedölum fyrir báða fætur auk margvíslegra tromma og gjalla sem leikið er á með mismunandi sleglum.

Trommusett

Í trommusettsnámi lærir nemandinn allt það helsta sem við kemur trommusetts- og sneriltrommuleik. Einnig kynnumst við algengustu slagverkshljóðfærum sem notuð eru í rytmískri tónlist, s.s. hristur, tambúrínur og handtrommur.

Til að nám geti hafist á trommusett þarf nemandi að hafa líkamlega burði til að halda auðveldlega á trommukjuðum og ná til gólfs með báðum fótum þegar setið er á trommustól.
Algengast er að nemendur hefji nám á trommusett 8 - 10 ára.

Frá upphafi náms þarf nemandi að hafa til umráða æfingaplatta og kjuða af heppilegri stærð og þyngd. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara varðandi kaup á búnaði.

Nám á trommusett skiptist í einkatíma og hljómsveitarstarf. Mikil áhersla er lögð á fjölbreytt og einstaklingsmiðað nám með  aðalnámskrá tónlistarskóla að leiðarljósi.  Nemendur byrja að sækja tónfræðitíma þegar kennarar telja það tímabært. Nemendur í slagverksdeild fá tækifæri á afar skemmtilegum og fjölbreyttum samspilshópum og hljómsveitum innan rytmísku og klassísku deilda tónlistarskólans.

Námsleiðir í boði

Fornám (5-9 ára) Áfangabraut (5 ára+) Stúdentsbraut

Emil Þorri Emilsson
Kennari
Slagverk, Trommusett, Fagstjóri, Blásarasveit

Emil er fagstjóri í rytmískri hljóðfæradeild og slagverksdeild, hann kennir á slagverk og trommusett ásamt því að stjórna blásarasveit B. Hann útskrifaðist úr Tónlistarskólanum á Akureyri 2012 og Konunglega tónlistarháskólanum í Den Haag í Hollandi 2018. Emil leiðir slagverk og pákur hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ásamt því að vera meðlimur í kammersveitinni Elju.

Rodrigo dos Santos Lopes
Kennari
Trommur

Rodrigo Lopes er tónlistarkennari í tónlistarskólum á Akureyri. Þar kennir hann trommu- og slagverksleik. Sem tónlistarmaður er Rodrigo Lopes fjölhæfur en mesta rækt hefur hann lagt við ýmis afbrigði af tónlist Rómönsku Ameríku.