Fara í efni

Orgel

Orgel er hljómborðshljóðfæri eins og píanó, semball og fleiri hljóðfæri en það er líka blásturshljóðfæri því hljómurinn í orgelinu myndast þegar orgelpípurnar fá loft úr belg sem staðsettur er inni í hljóðfærinu. Það er því ólíkt píanói að gerð, áslátturinn á hljómborðinu er léttari og hljómurinn gerólíkur. Orgel eru mjög mismunandi að útliti, stærð og gerð. Flest eru þau sérsmíðuð eftir pöntun og eru því einstök sinnar tegundar. Sum eru lítil með bara eitt hljómborð og eina rödd en önnur stærri með tveimur til þremur hljómborðum, fótspili og 20-40 röddum. Stærsta orgel í heimi er með sjö hljómborðum, pedal (fótspili) og 337 röddum. Orgelpípurnar sem gefa frá sér þessar mismunandi raddir eru alls 33,114 talsins og hljóðfærið er u.þ.b. 150 tonn að þyngd.  Orgelið getur hljómað eins og sinfóníuhljómsveit og orgelleikarinn getur stjórnað hvernig hljóm hann vill fá úr hljóðfærinu með því að velja saman mismunandi raddir.

Orgel

 


Byrjendur í orgelnámi geta verið á öllum aldri og börn sem ekki ná ennþá niður á fótspilið byrja á því að spila með höndunum en bæta svo fótspilinu við síðar. Kennt er eftir aðalnámskrá tónlistarskóla og orgelnemendur byrja að sækja tónfræðitíma þegar kennarar telja það tímabært.
Kennslan fer fram í einkatímum í Akureyrarkirkju.

Orgelið er sannarlega stórbrotið hljóðfæri og ekki að ástæðulausu að það hafi fengið titilinn „drottning hljóðfæranna“. Ekkert hljóðfæri nær að töfra fram slík blæbrigði sem orgelið. Ekkert hljóðfæri getur spilað af slíkum krafti að yfirgnæfa má heila sinfóníuhljómsveit en jafnframt svo veikt að vart megi heyra. Ekkert hljóðfæri býður upp á jafn mikinn fjölbreytileika í hljóm og útliti sem orgelið.

Námsleiðir í boði

Fornám (5-9 ára) Áfangabraut (5 ára+) Stúdentsbraut

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir
Kennari
Orgel

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og í Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Þaðan lauk hún meistaraprófi í kirkjutónlist undir handleiðslu prof. Bine Bryndorf. Sigrún hefur starfað sem organisti og kórstjóri í Reykjavík, í Kaupmannahöfn og á Akureyri. Sigrún starfar nú sem organisti við Akureyrarkirkju og við Möðruvallaklausturskirkju í Hörgárdal ásamt því að kenna við Tónlistarskólann á Akureyri.